Víkingar og gufupönk í væntanlegum íslenskum leik

Íslenska tölvuleikjafyrirtækið Runic Dices vinnur nú hörðum höndum að því að framleiða sinn fyrsta tölvuleik, Nanokings.

Nanokings gerist í Myrkrafirði, sem er eins konar víkinga- eða gufupönksheimur. Þar eru leikmenn settir í hlutverk víkings að nafni Úlfur, og þurfa að verjast ýmsum skepnum til þess að halda lífi.

Í upphafi leiks fá leikmenn vopn af handahófi en safna að sér fleiri vopnum og öðrum hlutum eftir því sem líður á leikinn.

Persónur innanleikjar hafa einnig mismunandi færni og verða kraftmeiri í hvert sinn sem persónan deyr. 

Skrifaði frá hjartanu

Leó Ólafsson, einn af stofnendum Runic Dices, segir hugmyndina að leiknum hafa fæðst að nóttu til, er hann settist fyrir framan tölvuna til þess að skrifa eitthvað frá hjartanu.

Hann hafi alltaf haft dálæti á víkingum og gufupönki sem varð til þess að hann ákvað að prófa að blanda því saman, sem varð upphafið á tölvuleiknum Nanokings.

Nanokings er væntanlegur gufupönks- og víkingatölvuleikur frá Runic Dices.
Nanokings er væntanlegur gufupönks- og víkingatölvuleikur frá Runic Dices. Grafík/Runic Dices

Víkingar við völd

„Árið 2082 höfðu víkingar náð heimsyfirráðum. Þrátt fyrir tækniyfirburði þeirra var ekki hægt að bjarga þeim. Hungur og stríð bundu enda á mannkynið,“ segir um leikinn, sem hefst 300.000 árum eftir þetta.

„Sólin hefur færst nær jörðu, sem þýðir lengri nætur og styttri dagar. Mannkynið hefur því aðeins þrjár til fjórar klukkustundir af sólarljósi áður en nístingsköld nóttin tekur við.“

Mannkyninu var útrýmt en mörgum öldum síðar snýr það aftur, sterkara og hærra en nokkurn tímann áður. Menn eru hins vegar neðstir í fæðukeðjunni þar sem skepnurnar höfðu þróast talsvert á þessum tíma. 

„Þessar verur hafa ekki einungis bætt sig í styrk og fjölda, heldur hefur bæst í eðli þeirra að drepa manneskjur, sem höfðu næstum því tortímt jörðinni.“

Engar minningar um forfeður sína

Að sama skapi er mannkynið á „ættbálkatíma, með engar minningar um sögulegu forfeður sína“ og er því hver ættbálkur með sínar eigin hugmyndir um trú og siðferði sem síðar verður til vandræða.

„Það eru því ekki einungis skepnurnar sem mennirnir þurfa að hafa áhyggjur af, heldur einnig aðrir víkinga-ættbálkar.“

Í samtali við mbl.is segir Axel Ingi Kristinsson, hjá Runic Dices, að fljótlega verði farið af stað með herferð á Kickstarter. Þar verður safnað fjármagni til þess að hægt verði að klára tölvuleikinn.

Þar að auki geta áhugasamir fengið að prófa leikinn í prufuútgáfu (e. demo) þegar Kickstarter-herferðin fer af stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert