Örlagastund fyrir Ancelotti í kvöld

Carlo Ancelotti, þjálfari Real Madrid.
Carlo Ancelotti, þjálfari Real Madrid. AFP

Florentino Perez, forseti Real Madrid á Spáni, hefur boðað til blaðamannafundar í kvöld, en þar má búast við því að hann tilkynni brotthvarf, Carlo Ancelotti, þjálfara liðsins.

Árangur Real Madrid á þessari leiktíð hefur ekki verið upp á marga fiska, en liðið lenti í 2. sæti deildarinnar, datt út í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu og komst þá ekki heldur í bikarúrslit á Spáni.

Ancelotti tók við liðinu af Jose Mourinho árið 2013, en hann vann spænska bikarinn og Meistaradeildina á sínu fyrsta tímabili en tókst ekki að leika það eftir á leiktíðinni sem er að klárast.

Starf Ancelotti hefur verið mikið í umræðunni á Spáni, en fjölmiðlar eru þegar byrjaðir að orða aðra þjálfara við starfið auk þess sem Ancelotti hefur sjálfur tilkynnt að hann sé með tilboð frá Englandi, Ítalíu og Þýskalandi.

Nú virðist umræðan ætla að breytast í veruleika, en Perez hefur boðað fjölmiðla á blaðamannafund í Madríd og má því búast við að hann tilkynni þar brotthvarf Ancelotti.

Rafael Benitez, þjálfari Napoli, hefur verið orðaður við Real Madrid að undanförnu en búist er því að hann yfirgefi Napoli í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert