Messi, Neymar eða Ronaldo?

Ronaldo hefur hlotið Gullboltann tvö ár í röð.
Ronaldo hefur hlotið Gullboltann tvö ár í röð. AFP

Lionel Messi, Cristiano Ronaldo og Neymar eru tilnefndir til Gullboltans, Ballon d'Or, 2015. Í kvennaflokki eru Carli Lloyd frá Bandaríkjunum, Aya Miyama frá Japan og Célia Sasic frá Þýskalandi tilnefndar. Tilkynnt var um hverjir eru í þremur efstu sætum nú fyrir stundu.

Lionel Messi og Neymar urðu þrefaldir meistarar með Barcelona á síðustu leiktíð; spænskir meistarar, bikarmeistarar og unnu Meistaradeild Evrópu. Messi hefur samtals leikið 56 leiki á árinu 2015, með félags- og landsliði, og skorað í þeim 48 mörk. Neymar hefur skorað 41 mark á árinu.

Cristiano Ronaldo fór á kostum á síðasta keppnistímabili. Real Madrid hafnaði þá í öðru sæti spænsku deildarinnar og féll út í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu. Ronaldo hefur, líkt og Messi, skorað 48 mörk á þessu ári en í 52 leikjum. Ronaldo hefur hlotið Gullboltann síðustu tvö ár en þrjú árin þar á undan hlaut Messi viðurkenninguna eftirsóttu.

Lloyd, Miyama eða Sasic?

Carli Lloyd var í lykilhlutverki hjá Bandaríkjunum og fyrirliði þegar Bandaríkin urðu heimsmeistarar í sumar. Aya Miyama var prímusmótorinn á miðju Japana sem lentu í öðru sæti á heimsmeistaramótinu í Kanada. Líkt og Lloyd er hún fyrirliði.

Sasic lagði skóna á hilluna í sumar en hún var kjörin knattspyrnumaður Evrópu í ágúst. Hún varð markahæst í þýsku 1. deildinni á síðustu leiktíð og lék sinn síðasta leik þegar Þýskaland tapaði fyrir Bandaríkjunum í undanúrslitum heimsmeistaramótsins í sumar.

Enrique líklegur

Tilnefndir sem knattspyrnustjóri ársins hjá körlum eru Pep Guardiola hjá Bayern München, Luis Enrique hjá Barcelona og Jorge Sampaoli landsliðsþjálfari Síle. Guardiola leiddi Bayern til tvöfaldrar meistaratignar í Þýskalandi en félagið vann þýsku 1. deildina og bikarkeppnina. 

Enrique náði frábærum árangri á fyrsta tímabili sínu sem þjálfari Barcelona. Liðið vann allt sem hægt var að vinna; deild, bikar og Meistaradeild Evrópu. Sampaoli stýrði Síle til sigurs í Suður-Ameríkubikarnum en það var í fyrsta skipti sem Síle stendur uppi sem sigurvegari í þeirri keppni.

Heimsmeistaratitillinn vegur þungt

Tilnefndar sem knattspyrnustjóri ársins hjá konum eru Jill Ellis landsliðsþjálfari Bandaríkjanna, Mark Sampson landsliðsþjálfari Englands og Norio Sasak landliðsþjálfari Japan. Ellis stýrði Bandaríkjunum til sigurs á heimsmeistaramótinu. Þar lagði Bandaríkin Japan, undir stjórn Sasak, í úrslitaleik.

Sampson stýrði Englandi til bronsverðlauna á heimsmeistaramótinu í sumar. Munaði engu að liðið kæmist lengra en grátlegt sjálfsmark á 90. mínútu í undanúrslitum tryggði Japönum sæti í úrslitaleiknum. Þriðja sætið er besti árangur Englands á stórmóti frá upphafi.

Célia Sasic skallar knöttinn í landsleik.
Célia Sasic skallar knöttinn í landsleik.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert