Stoltir Álandseyingar styðja hver annan

Liðsmenn IFK Mariehamn fagna finnska meistaratitilinum í knattspyrnu.
Liðsmenn IFK Mariehamn fagna finnska meistaratitilinum í knattspyrnu. Skjáskot

Knattspyrnufélagið IFK Mariehamn varð um helgina finnskur meistari í knattspyrnu. Afreki liðsins hefur verið líkt við ævintýri Leicester í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili. Liðið er  frá Álandseyjum en þar búa 29 þúsund manns.

Jani Lyyski, fyrirliði liðsins, fagnaði ásamt félögum sínum finnska meistaratitlinum en erlendir fjölmiðlar greina frá því að Mariehamn-liðið sé einn minnsti staður í heimi sem hefur hampað landstitli í efstu deild í knattspyrnu. Íbúar Álandseyja eru þó fleiri en íbúar á Akranesi, Akureyri og í Vestmannaeyjum svo dæmi séu tekin.

Brasilísk hetja

Rúmlega 4.300 áhorfendur komu á Wiklof Holding-völlinn þar sem Mariehamn þurfti sigur gegn Ilves til að tryggja sér titilinn.

Á sama tíma mættust tvö ríkustu lið Finnlands, HJK og SJK. Þurftu þau bæði á sigri að halda og á sama tíma að vonast til þess að Mariehamn myndi ekki vinna sinn leik. Þeim varð ekki að ósk sinni en brasilíski varamaðurinn Diego Asis, tryggði Mariehamn 2:1-sigur og fyrsta meistaratitilinn í sögu Álandseyjaliðsins.

Diego tryggði Mariehamn fyrsta titilinn í sögu félagsins í fyrra þegar liðið varð bikarmeistari. Var það mikill sigur fyrir þjálfarann, Pekka Lyyski, sem hafði stýrt liðinu í 13 ár. Hann hætti sem þjálfari eftir bikartitilinn og bjuggust flestir við því að Álandseyjaliðið myndi lenda í vandræðum á nýloknu keppnistímabili.

Álandseyjar eru mitt á milli Svíþjóðar og Finnlands.
Álandseyjar eru mitt á milli Svíþjóðar og Finnlands.

Einhverjir sparkspekingar spáðu því að liðið myndi hafna í neðsta sæti. Nýir þjálfarar, Peter Lundberg og Kari Virtanen, voru ekki á því að láta slíkar hrakspár rætast.

Eins og Lars og Heimir

Tveggja þjálfara kerfið er ekki vaninn í Finnlandi og höfðu fáir trú á því að það myndi ganga upp. Kerfið er þekkt í Svíþjóð þar sem Lars Lagerbäck og Tommy Soderberg voru landsliðsþjálfarar í sameiningu fyrir nokkrum árum. Eins og Íslendingar þekkja vel var Lagerbäck síðar landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins ásamt Heimi Hallgrímssyni.

Þrátt fyrir að Mariehamn leiki í finnsku deildinni eru íbúar eyjarinnar mun tengdari Svíþjóð en Finnlandi. Sænska er tungumálið á eyjunni og sumir íbúar kunna varla stakt orð í finnsku. Sjálfsstjórn Álandseyja er talsverð en þeir hafa sitt eigið þing, fána og lögreglu.

Meiri Svíar en Finnar

„Þegar Finnland lýsti yfir sjálfstæði árið 1917 vildu Álandseyingar verða hluti af Svíþjóð. 95% eyjaskeggja kusu um það í óopinberri þjóðaratkvæðagreiðslu en Finnar neituðu þeim,“ útskýrði finnski blaðamaðurinn Juhavaltteri Salminen í samtali við Michael Yokhin hjá ESPN.

„Sátt náðist fjórum árum síðar þegar Finnum var skipað að gefa eyjunum ákveðið sjálfstæði. Álandseyjar hafa alltaf verið hluti af Finnlandi en ýmsir hlutir eru ákaflega ólíkir á milli staðanna.“

Mariehamn er hluti af samfélaginu og allir íbúar styðja við liðið. „Álandseyingar eru mjög stoltir af því sem þeir afreka,“ sagði blaðamaðurinn Victor Sundqvist en hann skrifar fyrir staðarblaðið.

„Við styðjum alltaf hvert annað. Hér á Álandseyjum finnum við að við erum mikilvæg.“

Fjarlægðin frá Finnlandi skapar góða stemningu í leikmannahópnum. Liðið ferðast í útileiki í ferju en það tekur níu tíma að sigla til Helsinki. „IFK Mariehman er eins og stór fjölskylda. Það er eins og þvið séum á móti heiminum og það gerir okkur sterkari,“ sagði sænski miðjumaðurinn Sebastian Wiklander.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert