Leit út eins og „old boys“-leikmaður

Nigel Reo-Coker í baráttu við Tryggva Guðmundsson í Evrópuleik FH …
Nigel Reo-Coker í baráttu við Tryggva Guðmundsson í Evrópuleik FH og Aston Villa hér um árið. hag / Haraldur Guðjónsson

Enski knattspyrnumaðurinn Nigel Reo-Coker hefur sagt skilið við norska B-deildarliðið Start sem Guðmundur Kristjánsson leikur með.

Dvöl Cokers hjá Start var stutt en hann samdi við liðið fyrir tveimur mánuðum og á þessum tíma lék hann aðeins einn deildarleik og einn bikarleik.

„Við höfum tekið ákvörðun um að ljúka samstarfinu. Við vissum að við vorum að taka áhættu með því að fá hann til okkar en hann hefur ekki staðið undir þeim væntingum sem við gerðum til hans,“ segir Steinar Pedersen þjálfari Start við norska blaðið Fædrelandsvennen.

Jesper Mathisen, einn af sérfræðingum TV2 í Noregi og fyrrverandi leikmaður Start, segir að þessi tíðindi komi sér ekki á óvart enda hafi Reo-Coker ekki verið nálægt því stigi að spila með aðalliði Start né varaliði. „Hann hefur litið meira út eins og old boys-leikmaður,“ segir Mathisen.

Reo-Coker er 33 ára gamall miðjumaður sem víða hefur komið við á ferli sínum. Hann hefur til að mynda leikið með ensku liðunum West Ham, Aston Villa og Bolton og í fyrra lék hann með kanadíska liðinu Vancouver Whitecaps í bandarísku MLS-deildinni. Þá á hann að baki 23 leiki með enska U21 árs liðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert