Félagsskipti Gylfa orðin ólíkleg

Gylfi gæti spilað áfram í þessari treyju.
Gylfi gæti spilað áfram í þessari treyju. AFP

Netmiðilinn Walesonline greinir frá því í kvöld að félagsskipti Gylfa Þórs Sigurðssonar frá Swansea til Everton séu orðin ólíkleg. Talið var næsta víst að Gylfi myndi ganga í raðir Everton í þessum mánuði eftir að hann neitaði að ferðast með liðinu til Bandaríkjanna í æfingaferð.

Síðan þá hefur Swansea hafnað tveimur stórum tilboðum Everton í Gylfa. Það síðara var upp á rúmar 40 milljónir punda, en samkvæmt fréttinni er Gylfi sjálfur spenntur fyrir félagsskiptunum.

Forráðamenn Everton eru hins vegar ekki spenntir fyrir því að borga þær 50 milljónir punda sem Swansea vill fá fyrir leikmanninn og er þolinmæði þeirra við að klófesta Hafnfirðinginn á þrotum.

Everton vildi helst fá Gylfa fyrir leik liðsins gegn Ruzomberok sem spilaður var í kvöld og eru forráðamenn félagsins nú byrjaðir að leita að öðrum kostum í stað Gylfa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert