Björn snýr aftur til AGF

Björn Daníel Sverrisson.
Björn Daníel Sverrisson.

Björn Daníel Sverrisson hefur leikið sinn síðasta leik með Vejle í dönsku B-deildinni því hann kemur aftur inn í leikmannahóp úrvalsdeildarliðsins AGF þegar æfingar hefjast á ný eftir áramótin.

Björn spilaði tvo fyrstu leiki tímabilsins með AGF en sat síðan á bekknum í fimm vikur áður en hann var lánaður til Vejle þar sem hann hefur spilað síðan í byrjun september.

Þjálfaraskipti hafa átt sér stað hjá AGF í millitíðinni og David Nielsen, nýr þjálfari, vill fá Björn í sinn hóp. 

„Hann hefur æfingar með okkur á ný í janúar og byrjar jafnfætis öðrum leikmönnum. Hann hefur ekki ennþá æft ndir minni stjórn en ég veit vel fyrir hvað hann stendur," segir Nielsen þjálfari við Jyllands-Posten.

Björn, sem er 27 ára miðjumaður, kom til AGF í ágúst 2016 frá Viking í Noregi þar sem hann lék í tæp þrjú ár. Til þess tíma spilaði hann með FH.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert