Nagelsmann tekur við RB Leipzig næsta sumar

Julian Nagelsmann lætur af störfum sem knattspyrnustjóri Hoffenheim, næsta sumar.
Julian Nagelsmann lætur af störfum sem knattspyrnustjóri Hoffenheim, næsta sumar. AFP

Julian Nagelsmann, knattspyrnustjóri þýska 1. deildarfélagsins Hoffenheim mun hætta með liðið næsta sumar en þetta staðfesti félagið í dag. Hann mun þá taka við sem knattspyrnustjóri RB Leipzig en þetta staðfesti Leipzig á Twitter síðu sinni núna rétt í þessu. 

Nagelsmann er einungis þrítugur að árum en hann er yngsti knattspyrnustjórinn í Evrópu í dag. Hann var sterklega orðaður við stjórastöðuna hjá Arsenal þegar tilkynnt var að Arséne Wenger myndi hætta með liðið í lok tímabils. Þá var hann einnig orðaður við Real Madrid fyrr í sumar en hann hefur stýrt Hoffenheim frá árinu 2015.

Hoffenheim endaði síðasta tímabil í þriðja sæti þýsku 1. deildarinnar, átta stigum á eftir Schalke sem endaði í öðru sæti. Hoffenheim mun spila í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð en liðið féll úr leik í umspili um laust sæti í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð eftir tap gegn enska úrvalsdeildarfélaginu Liverpool.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert