Jafnt hjá vængbrotnu liði Gunnhildar

Gunnhildur Yrsa.
Gunnhildur Yrsa. Ljósmynd/Heimasíða bandarísku deildarinnar.

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og stöllur hennar í Utah Royals í Bandaríkjunum gerðu markalaust jafntefli við toppliðið North Carolina Courage í bandarísku A-deildinni í knattspyrnu.

Gunnhildur lék allan leikinn á miðjunni hjá Utah en einvígið var að mörgu leyti sérstakt. Þjóðakeppni kvennalandsliða fer fram um þessar mundir og tekur lið Bandaríkjanna þar þátt. Það þýðir að níu mikilvægir leikmenn þessara tveggja liða voru fjarri góðu gamni í nótt.

Hlé átti að vera gert á deildarkeppninni en þjálfarar Bandaríkjanna ákváðu að kalla leikmannahóp sinn inn snemma til æfinga. Það þýddi að Gunnhildi vantaði þrjá öfluga liðsfélaga en North Carolina var hins vegar án sex lykilleikmanna.

Utah er í 6. sæti deildarinnar eftir 18 umferðir með 22 stig. Toppliðið er langefst með 46 stig, 17 stigum meira en næsta lið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert