Messi heldur áfram að slá metin

Lionel Messi fagnar einu af mörkum sínum í gær.
Lionel Messi fagnar einu af mörkum sínum í gær. AFP

Argentínski snillingurinn setti enn eitt metið á knattspyrnuvellinum í gær þegar Spánarmeistarar Barcelona lögðu hollensku meistarana í PSV Eindhoven 4:0 í fyrstu umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu.

Messi skoraði þrennu í leiknum og var þetta áttunda þrenna hans í Meistaradeildinni frá upphafi og hefur enginn skorað fleiri þrennur en Argentínumaðurinn í þessari sterkustu deild í heimi. Portúgalinn Cristiano Ronaldo kemur næstur með sjö þrennur.

PSV varð 30. liðið sem Messi skorar gegn liði í Evrópukeppninni og þessi magnaði leikmaður hefur nú skorað 64 mörk í 63 leikjum í riðlakeppni Meistaradeildarinnar og alls hefur hann skorað 103 mörk í Meistaradeildinni.

Messi hefur byrjað tímabilið með stæl en hann hefur skorað sjö mörk í fyrstu sex leikjum Börsunga á tímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert