Turan gæti setið lengi í fangelsi

Arda Turan og Burak Yilmaz svekktir á meðan Íslendingar fagna …
Arda Turan og Burak Yilmaz svekktir á meðan Íslendingar fagna marki í leik Tyrkja og Íslendinga fyrir ári. AFP

Saksóknari í Tyrklandi hefur kært tyrkneska knattspyrnumanninn Arda Turan fyrir að ráðast á tyrknesku poppstjörnuna Berkay Sahin og krefst saksóknari að Turan verði dæmdur í tólf og hálfs ár fangelsi.

Turan, sem er samningsbundinn Barcelona en er í láni hjá tyrkneska liðinu Basaksehir, er kærður fyrir kynferðislega áreitni, að hafa verið með óleyfileg vopn undir höndum og að hafa ráðist á Sahin á næturklúbbi.

Turan er 31 árs gamall og kom til Barcelona frá Atletíco Madrid fyrir þremur árum. Lítið hefur gengið hjá Turan að festa sig í sessi hjá Barcelona. Hann kom ekkert við sögu með liðinu á síðustu leiktíð og var lánaður til Basaksehir sem hann lék með til loka síðustu leiktíðar. Í maí var hann rekinn af velli í leik með liðinu fyrir að hrinda aðstoðardómara og var í kjölfarið úrskurðaður í 16 leikja bann sem var síðan stytt í 10 leiki.

Turan á að baki 100 leiki með tyrkneska landsliðinu en hann lék sinn 100. leik í 3:0 tapi á móti Íslendingum í undankeppni HM í október á síðasta ári. Hann hefur ekki spilað með landsliðinu síðan þá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert