Rakitic missir af stórleiknum

Ivan Rakitic í leiknum gegn Spánverjum í gær.
Ivan Rakitic í leiknum gegn Spánverjum í gær. AFP

Ivan Rakitic verður ekki með Króötum á sunnudaginn þegar þeir sækja heim Englendinga í hreinum úrslitaleik liðanna í A-deild Þjóðardeildarinnar í fótbolta.

Zlatko Dalic þjálfari Króata tilkynnti rétt í þessu að miðjumaðurinn öflugi frá Barcelona yrði ekki með. Rakitic fór af velli um miðjan síðari hálfleik í hinum magnaða sigri Króata á Spánverjum, 3:2, í Zagreb í gær.

Staðan í 4. riðli er hreint ótrúleg fyrir þennan lokaleik á sunnudaginn því bæði liðin geta unnið riðilinn, sigurliðið mun fara í fjögurra liða úrslit Þjóðadeildarinnar, en liðið sem tapar verður hinsvegar neðst og fellur í B-deildina.

Spánn er með 6 stig og hefur lokið sínum leikjunum og mun vinna riðilinn ef leikurinn á Wembley endar með jafntefli. England og Króatía eru með 4 stig hvort og verði jafntefli kemur það í hlut Króata að falla í B-deildina. Öll þrjú liðin geta því farið í undanúrslit en Spánverjar eru einir öruggir með sætið í A-deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert