Eyðimerkurganga - Ekki unnið í eitt ár

Erik Hamrén landsliðsþjálfari.
Erik Hamrén landsliðsþjálfari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu hefur nú spilað 15 leiki í röð án sigurs en liðið hrósaði síðast sigri í vináttuleik gegn Indónesíu 14. janúar á síðasta ári.

Ísland gerði markalaust jafntefli í vináttuleik gegn Eistlandi í Doha í Katar í gær en íslenska liðið var skipað leikmönnum úr liðum hér heima og frá liðum á Norðurlöndum þar sem ekki var um alþjóðlegan leikdag að ræða.

Þetta var áttundi leikur landsliðsins undir stjórn Svíans Eriks Hamrén og hefur enginn þeirra unnist. Íslandi tókst ekki að vinna sigur í sjö leikjum þar á undan undir stjórn Heimis Hallgrímssonar. Í þessum 15 leikjum hefur Ísland skorað 14 mörk en hefur fengið á sig 34.

Úrslitin í síðustu 15 leikjum:

Mexíkó - Ísland 3:0 (vináttuleikur)

Perú - Ísland 3:1 (vináttuleikur)

Ísland - Noregur 2:3 (vináttuleikur)

Ísland - Gana 2:2 (vináttuleikur)

Argentína - Ísland 1:1 (HM)

Ísland - Nígería 0:2 (HM)

Króatía - Ísland 1:1 (HM)

Sviss - Ísland 6:0 (Þjóðadeildin)

Ísland - Belgía 0:3 (Þjóðadeildin)

Frakkland - Ísland 2:2 (vináttuleikur)

Ísland - Sviss 1:2 (Þjóðadeildin)

Belgía - Ísland 2:0 (Þjóðadeildin)

Katar - Ísland 2:2 (vináttuleikur
Svíþjóð - Ísland 2:2 (vináttuleikur)

Eistland - Ísland 0:0 (vináttuleikur)

Næsti leikur íslenska landsliðsins verður á útivelli gegn Andorra og verður það fyrsti leikur liðsins í undankeppni Evrópumótsins. Ísland og Andorra hafa fimm sinnum mæst, þrisvar í vináttuleikjum og tvisvar í undankeppni EM.

Ísland hefur unnið alla leikina með samanlagðri markatölu 14:0. Ísland er í 37. sæti á nýjasta styrkleikalista FIFA en Andorra í 133. sæti. Það ætti því að vera góður möguleiki á íslenskum sigri í fyrsta sinn í háa herrans tíð og ljúka þar með eyðimerkurgöngunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert