Sjötti gullskórinn en Messi hugsar enn um leikinn á Anfield

Lionel Messi er ekki vanur því að mæta á blaðamannafundi …
Lionel Messi er ekki vanur því að mæta á blaðamannafundi en sat fyrir svörum í dag. AFP

Lionel Messi er handhafi gullskósins í Evrópu í ár, þriðja árið í röð, eftir að hafa skorað 36 mörk fyrir Barcelona í spænsku 1. deildinni. 

Kylian Mbappé komst næst því að velta Messi úr sessi en hefði þurft að skora fjögur mörk í lokaumferðinni í Frakklandi í kvöld til að fá gullskóinn. Frakkinn skoraði eitt mark í kvöld og því alls 33 í deildinni í vetur.

Messi hefur nú fengið gullskó Evrópu alls sex sinnum á sínum ferli, sem er met, en Cristiano Ronaldo hefur tryggt sér gullskóinn fjórum sinnum.

Messi og félagar í Barcelona urðu Spánarmeistarar í ár og hyggjast fylgja því eftir með því að vinna spænska bikarmeistaratitilinn á morgun þegar þeir mæta Valencia í úrslitaleik. Barcelona féll hins vegar út gegn Liverpool í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu, þrátt fyrir 3:0-sigur á heimavelli því Liverpool vann seinni leikinn á Anfield 4:0. Það tap situr í Argentínumanninum eins og hann viðurkenndi á fréttamannafundi í dag:

„Þetta var mikill skellur fyrir okkur. Það að vinna bikarmeistaratitilinn er núna besta leiðin til að enda tímabilið. Við verðum að biðjast afsökunar á seinni hálfleiknum gegn Liverpool, ekki vegna úrslitanna heldur vegna þess hvernig þetta leit út og að við tókum ekki þátt. Þetta var eitt það versta sem ég hef upplifað á mínum ferli,“ sagði Messi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert