Hættur daginn eftir magnaðan sigur

Uwe Rösler er hættur með Malmö.
Uwe Rösler er hættur með Malmö. AFP

Þótt sænska knattspyrnuliðið Malmö hefði í gærkvöld unnið magnaðan sigur á grönnum sínum FC København í Evrópudeildinni, tryggt sér sigur í riðlinum og sæti í 32ja liða úrslitum keppninnar, er þjálfarinn hættur.

Þjóðverjinn Uwe Rösler er búinn að segja starfi sínu lausu en þetta var tilkynnt á fréttamannafundi hjá Malmö fyrir stundu. Arnór Ingvi Traustason leikur með Malmö og átti stóran þátt í sigurmarkinu á Parken í gærkvöld, 1:0, þegar hann skallaði boltann í andstæðing og þaðan hrökk hann í markið.

„Mín tilfinning er sú að ég geti ekki komið félaginu á þann stað sem forráðamenn þess vilja að það komist. Sé á sama stigi og Ajax og AZ Alkmaar og alltaf í toppbaráttu í Evrópumótunum,“ sagði Rösler sem tók við liði Malmö í júní 2018. Liðið hefur endað í þriðja og öðru sæti sænsku úrvalsdeildarinnar þessi tvö tímabil undir hans stjórn og er annað árið í röð komið í 32ja liða úrslit Evrópudeildarinnar.

Expressen segir að samkvæmt sínum heimildum hafi það verið forráðamenn Malmö sem áttu frumkvæðið að því að Rösler hætti með liðið og aðalástæðan hafi verið sú að harðneskjulegur stjórnunarstíll hans hafi ekki farið vel í leikmenn liðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert