Rob Rensenbrink er látinn

Rob Rensenbrink í leik með Hollandi á HM.
Rob Rensenbrink í leik með Hollandi á HM. AP

Rob Rensenbrink, einn af fremstu knattspyrnumönnum Hollendinga á áttunda áratug síðustu aldar sem lék með þeim tvo úrslitaleiki á HM, er látinn, 72 ára að aldri, eftir að hafa glímt við vöðvarýrnunarsjúkdóm í átta ár.

Rensenbrink var kantmaður í hollenska landsliðinu sem tapaði 2:1 fyrir Vestur-Þjóðverjum í úrslitaleik HM 1974 og fyrir Argentínu í framlengdum úrslitaleik HM, 3:1, árið 1978. Í leiknum gegn Argentínu átti Rensenbrink stangarskot þegar staðan var 1:1.

Rensenbrink lék 46 landsleiki fyrir Holland og skoraði í þeim 14 mörk. Sjö af þessum fjórtán mörkum skoraði hann heimsmeistaramótsárið 1978 og fimm þeirra í lokakeppninni í Argentínu.

Stærsta hluta ferilsins lék hann með sterkustu félögum Belgíu, Club Brugge og Anderlecht, og spilaði á fjórða hundrað leiki í belgísku A-deildinni þar sem hann skoraði 167 mörk. Undir lok ferilsins spilaði Rensenbrink með Portland Timbers í Bandaríkjunum og Toulouse í Frakklandi en uppeldislið hans var DWS í Amsterdam þar sem hann lék til 22 ára aldurs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert