Alli ekki týndur þó þjálfarinn vissi ekki hvar hann væri

Dele Alli fagnar marki í leik með Besiktas.
Dele Alli fagnar marki í leik með Besiktas. Ljósmynd/@BesiktasEnglish

Enski knattspyrnumaðurinn Dele Alli á ekki sjö dagana sæla um þessar mundir. Hann leikur sem stendur sem lánsmaður hjá tyrkneska félaginu Besiktas frá Everton.

Alli hefur stöðugt verið gagnrýndur fyrir frammistöðu sína hjá Besiktas á tímabilinu, þar á meðal opinberlega af knattspyrnustjóra sínum Senol Günes, auk þess sem stuðningsmenn liðsins hafa oftar en einu sinni baulað á hann.

Í samtali við tyrknesku sjónvarpsstöðina A Spor hélt Günes að skjóta föstum skotum að Alli og sagði miðjumanninn týndan.

„Við gáfum Dele Alli leyfi til að fara í smá frí, hann hefur ekki snúið aftur úr því ennþá. Það rignir, sem er líklega ástæðan fyrir því að hann mætti ekki [á æfingu].

Við erum að reyna að komast að því hvar hann er. Við erum að reyna að ná tali af honum. Hann svaraði ekki í síma. Vonandi lenti hann ekki í slysi,“ sagði knattspyrnustjórinn.

Alli fann sig knúinn til þess að leiðrétta þessi ummæli Günes og skrifaði á Instagramaðgangi sínum:

„Sæl öllsömul. Ég hef fengið fjölda skilaboða og vildi því koma einu á hreint. Félagið veitti mér leyfi til að hitta lækni í dag [í gær]. Ég á að mæta aftur á æfingu á morgun [í dag] eins og venja er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert