Fær Messi nýtt hlutverk hjá Barcelona?

Lionel Messi hefur verið orðaður við endurkomu til Barcelona.
Lionel Messi hefur verið orðaður við endurkomu til Barcelona. AFP/Juan Mabrobmata

Knattspyrnumaðurinn Lionel Messi verður í nýju  hlutverki hjá stórliði Barcelona á Spáni, fari svo að hann gangi til liðs við félagið á nýjan leik í sumar.

Það er Mundo Deportivo sem greinir frá þessu en samningur Messis, sem er 35 ára gamall, við París SG í Frakklandi rennur út í sumar og er talið næsta víst að hann yfirgefi franska liðið í sumar.

Hann hefur verið sterklega orðaður við endurkomu til Barcelona en hann er uppalinn hjá félaginu og lék með liðinu allan sinn feril, áður en hann gekk til liðs við París SG sumarið 2021.

Í frétt spænska miðilsins kemur meðal annars fram að Xavi, stjóri Barcelona, muni að öllum líkindum stilla Messi upp sem miðjumanni í þriggja manna kerfi, ekki sem framherja eða tíu.

Það myndi vissulega flækja málin fyrir aðra miðjumenn liðsins, eins og Pedri og Gavi, en Messi myndi þá sjá um að búa til færi fyrir félaga sína, frekar en að sjá um markaskorun liðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert