Spútnikliðið á HM lagði Brasilíu

Youssef En Nesyri og Sofiane Boufal fagna marki þess síðarnefnda …
Youssef En Nesyri og Sofiane Boufal fagna marki þess síðarnefnda í gærkvöldi. AFP/Fadel Senna

Marokkó hafði betur gegn Brasilíu, 2:1, í vináttuleik í knattspyrnu í Tangier í Marokkó í gærkvöldi.

Marokkó, sem endaði í fjórða sæti á HM í Katar í desember, var nokkurn veginn með sitt sterkasta lið í leiknum en nokkra lykilmenn vantaði hjá Brasilíu. Í staðinn fengu leikmenn úr brasilísku deildinni að spreyta sig. 

Sofiane Boufal kom Marokkó yfir í fyrri hálfleik áður en Casemiro jafnaði fyrir Brasilíu í þeim síðari. Það var svo Abdelhamid Sabiri sem skoraði sigurmarkið á 79. mínútu.

Brasilíska liðið er enn án stjóra en Ramon Menezes stýrði liðinu í gær. Menn eins og Carlo Ancelotti, stjóri Real Madrid, hafa verið orðaðir við starfið undanfarið en Tite var látinn fara eftir HM í desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert