BMW þrýstir á Williams að ráða Ralf áfram

Það tekur á að koma þröngum keppnishjálminum yfir höfuðið. Ralf …
Það tekur á að koma þröngum keppnishjálminum yfir höfuðið. Ralf Schumacher þarf einnig að taka sig á undir stýri.

Mario Theissen íþróttastjóri BMW vill að Williamsliðið framlengi samning sinn við Ralf Schumacher en stjórnendum liðsins, Frank Williams og Patrick Head, finnst hann ekki vinna fyrir kaupinu. Sjálfur segist ökuþórinn þurfa að taka sig á.

Samningur Ralfs Schumacher rennur ekki út fyrr en í árslok 2004 og hefur Theissen nú lýst því yfir að hann vilji að hann verði þegar í stað framlengdur til að tryggja samfellu innan liðsins. „Samfella er stórmál. Við viljum vinna áfram með sömu ökuþórum, þeir þekkja bílinn, mótorinn og mannskapinn. Mér finnst að Williams eigi að halda í þá báða, Ralf Schumacher, and Juan Pablo Montoya," sagði Theissen við frönsku fréttastofuna AFP.

Staða Ralfs verður þó í nokkuð lausu lofti nema hann taki sig á og bæti frammistöðu sína verulega. Nýlega sendu liðsstjórinn Frank Williams og tæknistjórinn Patrick Head - aðaleigendur liðsins - bréf þess efnis og sögðu honum að bæta sig ellegar byrja leita sér að vinnu annars staðar á árinu 2005.

Á Ralf það að þakka samningasnilli umboðsmanns síns, Willi Weber, að hann fær miklu hærra kaup hjá Williams en Montoya, eða um 12 milljónir dollara á ári miðað við 7 milljónir sem Montoya fær.

Heimildamaður hjá Williamsliðinu segir í samtali við útbreiddasta blað Bretlands í dag: „Sem stendur finnst Frank og Patrick að Ralf vinni ekki fyrir kaupi sínu og þeir sögðu honum það alveg umbúðalaust í bréfinu sem þeir sendu honum. Þeir vita hversu Ralf er megnugur og er áfram um að hann fari að sýna réttan styrk. Þeir vilja að hann láti hendur standa fram úr ermum og keppi í fremstu röð."

Ralf játar að hann verði að aðlagast breyttum aðstæðum og leggja harðar að sér á vissum sviðum á keppnishelgum. „Ég veit að ég þarf að bæta mig í tímatökum því það hefur ætíð verið styrkleiki minn að vera fljótur að finna bestu uppsetningu á bílnum. Það er mikilvægt að standa sig vel í tímatökum því nýju reglurnar auka óvissuna og ég get ekki alltaf treyst á að vinna mig upp í gegnum hópinn," segir ökuþórinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert