Drogba svaraði fyrir sig

Patrick Vieira var maðurinn á bak við sjálfsmarkið sem varnarmaðurinn Alex skoraði í viðureign Arsenal gegn PSV í E-riðli. En Vieira var líklegur til þess að setja boltann í netið af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Thierry Henry. Englandsmeistararnir töpuðu 3:0 í fyrsta leik riðlakeppninnar fyrir ári síðan gegn Inter og var greinilegt að leikmenn liðsins ætluðu sér að fara hægar í sóknaraðgerðir sínar.

Arsene Wenger var að sjálfsögðu ánægður með sigurinn. "Að mínu mati lékum við vel í fyrri hálfleik gegn sterkum andstæðingum. Við erum ekki vanir að vinna aðeins með einu marki en ég get vel sætt mig við niðurstöðuna. Ég er sannfærður um að leikurinn gegn Inter fyrir ári síðan var í undirmeðvitund leikmanna liðsins og við gerðum engin mistök þrátt fyrir að flæðið í leik okkar hefði ekki verið upp á það besta."

Guus Hiddink, þjálfari PSV, sagði að liðið hefði misst marga góða leikmenn í ensk lið í sumar, Mateja Kezman, Arjen Robben og Dennis Rommedahl, en þríeykið skoraði mörg mörk fyrir PSV í fyrra.

Panathinaikos tók á móti norska meistaraliðinu Rosenborg í Grikklandi og hafði betur, 2:1.

Larson skoraði gegn Celtic

Skoska meistaraliðið Celtic tapaði í fyrsta sinn á heimavelli í Meistaradeildinni frá upphafi og var spænska liðið Barcelona of stór biti fyrir heimamenn. Lokatölur 3:1 en liðin eru í F-riðli. Sænski landsliðsframherjinn Henrik Larson var ekki í byrjunarliði Barcelona en hann fór frá Celtic sl. vor og samdi við spænska liðið í sumar.

Deco, Ludovic Giuly og Henrik Larsson skoruðu mörkin fyrir Barcelona en Chris Sutton skoraði mark Celtic. Leikurinn hófst ekki á réttum tíma þar sem gríðarlegt umferðaröngþveiti var í Glasgow og töfðust áhorfendur á leið sinni að vellinum.

Shaktar Donetsk tók á móti ítalska liðinu AC Milan í Úkraínu og skoraði hollenski landsliðsmaðurinn Clarence Seedorf eina mark leiksins á 84. mínútu.

Reinke var í stuði

Ítalska liðið Inter Mílanó sýndi styrk sinn á heimavelli sínum San Síró gegn þýska liðinu Werder Bremen sem lék einum manni færri mest allan leikinn eftir að Valerien Ismael var vísað af velli á fimmtu mínútu. Christian Vieri misnotaði vítaspyrnu fyrir Inter en Adriano skoraði bæði mörk liðsins, 2:0, lokatölur. Andreas Reinke, markvörður Bremen, átti stórleik, varði vítaspyrnu og bjargaði liðinu frá stórtapi en liðin eru í G-riðli.

Spænska meistaraliðið Valencia sem er undir stjórn Claudio Ranieri lagði belgíska liðið Anderlect á heimavelli, 2:0. Anderlecht hefur aðeins unnið einn af síðustu 18 leikjum sínum í Evrópukeppni.

Drogba fór á kostum

Chelsea virkaði sannfærandi á útivelli gegn Paris SG í gær í H-riðli. Að mati breskra blaðamanna er allt annar bragur á liðinu undir stjórn Jose Mourinho. John Terry braut ísinn með marki eftir hornspyrnu og eftirleikurinn var auðveldur fyrir Chelsea þar sem Didier Drogba bætti við tveimur mörkum.

"Mörkin eru ánægjuleg og gefa mér aukið sjálfstraust í komandi verkefnum liðsins. En úrslit leiksins eru mikilvægari en mörkin sem ég skoraði," sagði Drogba eftir leikinn en hann lék með Marseille í frönsku deildinni á síðustu leiktíð.

Mourinho var sáttur við leik sinna manna. "Ég er mjög ánægður með hvernig við réðum gangi leiksins frá því að flautað var til leiks og þar til leiknum lauk. Allir leikmenn liðsins stóðu sig frábærlega," sagði Mourinho en Eiður Smári Guðjohnsen var í byrjunarliðinu en fór af velli með skurð á höfði á 11. mínútu.

Evrópumeistaralið Porto átti 24 skot að marki CSKA Moskva en liðið náði ekki að skora líkt og gestirnir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert