„Heiður að vera á hliðarlínunni“

Johan Björnfot messar yfir varnarmönnum Íslands.
Johan Björnfot messar yfir varnarmönnum Íslands. mbl.is/Kristján Maack

Johan Björnfot, aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins í íshokkí, var ánægður með sína menn eftir leikinn gegn Eistlandi á HM í Narva í dag og sagðist aldrei áður hafa verið sáttur eftir tapleik en Eistland sigraði 6:1.

„Þetta var mjög góð frammistaða því við vorum að spila gegn besta liðinu í keppninni. Menn fylgdu leikskipulaginu fullkomlega og ég hef aldrei séð þessa stráka spila leik á þessari getu. Leikurinn var jafnari en úrslitin gefa til kynna og eftir fyrsta leikhluta þá fékk ég á tilfinninguna að við gætum unnið leikinn. Þó lið Eistlands sé mjög sterkt þá fengum við fullt af færum til þess að skora fleiri mörk. Það er aldrei skemmtilegt að tapa en í fyrsta skipti á ferlinum líður mér vel eftir tapleik. Ég er mjög stoltur af strákunum,“ sagði Johan sem er fyrrum atvinnumaður í íþróttinni. Johan er sænskur og þótti mjög efnilegur leikmaður fyrir um áratug síðan en þurfti að hætta vegna þrálátra meiðsla aðeins 23 ára gamall. 

Johan vinnur meira með varnarleikinn og Richard þjálfari vinnur meira með sóknarleikinn en fyrst og fremst vinna þeir mjög vel saman. Hvað fannst Johani um varnarleikinn? „Allir varnarmenn okkar stóðu sig vel í þessum leik. Þeir voru ákveðnir en tóku réttar ákvarðanir. Þeir voru hreyfanlegir og gáfu Eistunum lítinn frið. Þetta er besti landsleikurinn sem ég hef séð varnarmennina spila til þessa. Það er ansi merkilegt í ljósi þess að okkur vantaði Ingvar fyrirliða sem er okkar sterkasti varnarmaður,“ sagði Johan og bætti því við að hann hefði hrifist mjög af frammistöðu Ævars Björnssonar í markinu sem lék sinn fyrsta leik í keppninni.

Johan hrósaði íslensku leikmönnunum sérstaklega fyrir gott hugarfar. „Ég er þvílíkt ánægður með strákana að því leyti að þeir ná alltaf upp víkingaandanum í hverjum einasta leik og berjast fyrir land og þjóð. Það er heiður að vera á hliðarlínunni hjá slíku liði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert