Birkir á siglingu í amerískum háskólatennis

Birkir Gunnarsson.
Birkir Gunnarsson. Ljósmynd/tennissamband Íslands

Tenniskappinn Birkir Gunnarsson hefur nú lokið sínu öðru ári á bandarísku NAIA háskólamótaröðinni. Hann stundar nám og keppir í tennis fyrir Auburn University at Montgommery sem er í Alabama.

Skólinn náði því að komast alla leið í úrslit í Nationals eins og lokakeppnin er kölluð í Ameríku eftir að hafa sigrað suðurríkjakeppnina, en á Nationals keppa bestu skólarnir hverju sinni. Auburn University sigruði í 21 leik en töpuðu 6 leikjum á tímabilinu.

Skólinn endaði svo í þriðja sæti á Nationals eftir að hafa lotið í lægra haldi í fyrir Georgia Gwinnett en þeir sigruðu á mótaröðinni. Áður höfðu þeir sigrað Lindsey Wilson University á leið sinni í undanúrslitin. Birkir sigraði 18 af 23 leikjum sínum á tímabilinu í einliðaleik á mótaröðinni. Flottur árangur hjá Birki en Alabama er eitt af suðurríkjum Bandaríkjanna þar sem margir af bestu tennisleikurunum spila.

Birkir er nú kominn til landsins þar sem hann mun keppa á Smáþjóðaleikunum í byrjun júní. Í júlí heldur hann svo á Davis Cup í San Marino sem er heimsmeistaramót tennismanna. Fróðlegt verður að fylgjast með hvort hann hafi ekki notið góðs af æfingum og keppnum vestra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert