Björninn á enn von eftir 9:1 sigur

Leikmenn Bjarnarins fagna einu níu marka sinna í kvöld.
Leikmenn Bjarnarins fagna einu níu marka sinna í kvöld. mbl.is/Golli

Skautafélagið Björninn burstaði UMFK Esju 9:1 þegar liðin áttust við í Hertz-deild karla í íshokkí í Egilshöllinni í kvöld.  Um var að ræða þýðingarmikinn leik fyrir Björninn sem eygir ennþá von um að komast í úrslitakeppnina.

Björninn byrjaði fyrsta leikhluta af miklum krafti en strax á 3 mínútu skoraði Jón Árnason eftir stoðsendingu frá Úlfari Andréssyni og Birki Árnasyni.  Aðeins 20 sekúndum síðar skorar síðan Charles Williams annað mark Bjarnarins.  UMFK Esja náði að minnka muninn niður í eitt mark með marki frá Andra Sverrissyni með stoðsendingu frá Birni Sigurðarssyni og Ólafi Björnssyni.  Staðan eftir fjörugan fyrsta leikhluta var því 2:1 fyrir Björninn.  Í lok fyrsta leikhluta varð fyrirliði Bjarnarins, Birkir Árnason, fyrir meiðslum og spilaði ekki meira með.

Annar leikhluti var síðan alfarið í eigu Bjarnarmanna sem hófu leikhlutann með marki strax eftir eina og hálfa mínutu þegar Egan Ryley skoraði eftir stoðsendingu frá Charles Williams og Bergi Einarssyni. Á sjöttu mínútu bætti Charles Williams síðan við sínu öðru marki með stoðsendingu frá Egan Ryley.  Á þessum tíma var staða mála farin að fara í taugarnar á Esjumönnum sem fengu í kjölfarið refsitíma í boxinu sem Bjarnarmenn voru duglegir að nýta sér, fyrst með marki frá Úlfari Andréssyni eftir stoðsendingu frá Charles Williams og Fali Guðnasyni. Síðan aftur með marki frá Charles Williams með stoðsendingu frá Úlfari Andréssyni og Andra Má Helgasyni.  Staðan orðinn 6:1 fyrir Björninn og Esjumenn ákveða að skipta um markmann og inn á kemur Maksymilian Mojzyszek. Áfram héldu Esjumen að fá á sig dóma vegna brota sem Bjarnarmenn nýttu sér núna með marki frá Egan Ryley með stoðsendingu frá Charles Williams og Úlfari Andréssyni.  Staðan í lok annars leikhluta orðinn 7:1 Birninum í hag.

Þriðji leikhluti hefur oft verið leikhlutinn sem hefur reynst Birninum erfiður en í þetta skiptið mættu þeir einbeittir til leiks og bættu við tveimur mörkum frá Charles Williams eftir stoðsendingu frá Kópi Guðjónssyni og Fali Guðnasyni. Síðasta mark leiksins og jafnframt sitt fjórða í leiknum skoraði síðan Charles Williams með stoðsendingu frá Andra Má Helgasyni.  Þar með landaði Björninn öruggum 9:1 sigri á UMFK Esju.   

Sigurganga Bjarnarins heldur því áfram en liðið hefur núna unnið sannfærandi 5 leiki í röð og setur óvænta spennu í lokabaráttu um úrslitakeppnina.

Björninn                            

Mörk/Stoðsendingar:

Charles Williams 5/3

Egan Ryley 2/1

Jón Árnason 1/0

Úlfar Andrésson 1/3

Kópur Guðjónsson 0/1

Andri Már Helgason 0/2

Falur Guðnason 0/2

Birkir Árnason 0/1

Bergur Einarsson 0/1

UMFK Esja                        

Mörk/Stoðsendingar:

Andri Sverrisson 1/0

Björn Róbert Sigurðarsson 0/1

Ólafur Hrafn Björnsson 0/1

Refsimínútur Bjarnarins: 8

Resimínútur UMFK Esju: 12

Frá leik liðanna í kvöld.
Frá leik liðanna í kvöld. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert