Aníta á mesta von um titil

Aníta Hinriksdóttur hljóp vel á Reykjavíkurleikunum.
Aníta Hinriksdóttur hljóp vel á Reykjavíkurleikunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aníta Hinriksdóttir er líklegust til að landa gullverðlaunum af þeim níu Íslendingum sem keppa á Norðurlandamótinu innanhúss í frjálsum íþróttum í Växjö í Svíþjóð í dag.

Aníta er með besta skráða tímann í 800 metra hlaupi en hin 25 ára gamla Hedda Hynne stendur henni næst eftir að hafa hlaupið á 2:02,76 mínútum í vetur. Aníta vann RIG á dögunum á 2:02,47 mínútum.

Með hlaupi sínu á RIG tryggði Aníta sér farseðilinn á HM innanhúss sem fram fer í Portland í Bandaríkjunum 17.-20. mars. Sem stendur er hún eini Íslendingurinn með sæti á mótinu, en skilyrðin fyrir því að komast inn eru jafnvel strangari en fyrir Ólympíuleikana í sumar. Ísland mun þó eiga kost á að senda einn karlkyns keppanda á HM, þó að enginn nái settu lágmarki, og því er til mikils að vinna fyrir þá íslensku karla sem keppa í Växjö og á öðrum mótum fram til 7. mars, að standa, þegar að hugsanlegu vali kemur, sem best að vígi í samanburði við aðra.

Hafdís Sigurðardóttir keppir í langstökki en hún setti Íslandsmet á RIG með 6,54 metra stökki. Hafdís býr nú og æfir í Svíþjóð eftir að hafa flutt í síðasta mánuði. Hún þarf að stökkva 6,70 metra til að komast á ÓL í Ríó og 6,75 metra til að komast á HM í mars. Aðeins hin sænska Khaddi Sagnia hefur stokkið betur en Hafdís eða 6,61 metra í vetur.

Um bikarkeppni er að ræða í Växjö, þar sem Ísland og Danmörk eru með sameinað lið. Hulda Þorsteinsdóttir keppir í stangarstökki, Þorsteinn Ingvarsson í langstökki, Arna Stefanía Guðmundsdóttir í 400 metra hlaupi, Þórdís Eva Steinsdóttir og Kolbeinn Höður Gunnarsson í 200 metra hlaupi, og þeir Guðni Valur Guðnason og Óðinn Björn Þorsteinsson í kúluvarpi. sindris@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert