Bangsaflóð á svellinu (myndskeið)

Leikmenn Hershey Bears höfðu gaman af bangsaflóðinu.
Leikmenn Hershey Bears höfðu gaman af bangsaflóðinu. Ljósmynd/Twitter

Hvað voru 20.662 bangsar að gera inni á skautasvellinu í leik Hershey Bears og Syracuse Crunch í AHL-deildinni í íshokkí í Pennsylvaníu á sunnudaginn? Svo sem ekki margt, því þetta voru leikfangabangsar, en ástæðan fyrir veru þeirra á svellinu er einföld.

Í íshokkí í Norður-Ameríku hefur skapast hefð fyrir því að í einum leik á ári taki stuðningsmenn leikfangabangsa með sér í höllina. Þeir kasta svo böngsunum inn á völlinn þegar liðið þeirra skorar sitt fyrsta mark í leiknum. Böngsunum er svo safnað saman og þeir gefnir til góðgerðamála.

Óhætt er að segja að mjúkum böngsum hafi rignt inn á svellið í Hershey, þegar Garrett Mitchell skoraði fyrir heimamenn eftir korters leik. það tók sinn tíma að safna þeim öllum saman og hreinsa svellið, en það var svo tilkynnt á Twitter-síðu Hershey Bears að 20.662 bangsar hefðu safnast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert