Íslenska sveitin fjórtánda á landsmeti

Systurnar Jóhanna Gerða Gústafsdóttir og Eygló Ósk Gústafsdóttir voru báðar …
Systurnar Jóhanna Gerða Gústafsdóttir og Eygló Ósk Gústafsdóttir voru báðar í boðsundsveitinni. mbl.is/Golli

Íslenska kvennasveitin í 4x50 metra fjórsundi hafnaði í fjórtánda sæti á heimsmeistaramótinu í sundi í 25 metra laug í Windsor í Kanada í dag.

Þær Eygló Ósk Gústafsdóttir, Hrafnhildur Lúthersdóttir, Bryndís Hansen og Jóhanna Gerða Gústafsdóttir skipuðu sveitina sem synti samtals á 1:49,41 mínútu. Þær bættu tólf ára gamalt landsmet í greininni rækilega en gamla metið frá 2004 var 1:57,06 mínúta.

Munurinn á landsmeti og Íslandsmeti er sá að landsmet setur úrvalslið þjóðar en Íslandsmet setur sveit skipuð keppendum úr sama félagi.

Eygló setti þar að auki Íslandsmet í fyrsta sprettinum en hún synti 50 metra baksund sitt á 27,40 sekúndum. Eygló og Ingibjörg Kristín Jónsdóttir deildu gamla metinu, en það var 27,45 sekúndur. Ingibjörg setti það fyrir fimm árum en Eygló jafnaði það fyrir tveimur árum.

Alls var 21 sveit skráð til keppni í boðsundinu og 20 tóku þátt. Átta efstu keppa til úrslita í kvöld en til að ná því hefði þurft að synda á 1:48,45, sem var tími Ástralanna í áttunda sætinu. Sveit Kanada náði besta tímanum, 1:45,49 mínútum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert