ÍR-ingar hrósuðu sigri

Sigurlið ÍR-inga.
Sigurlið ÍR-inga. Ljósmynd/FRÍ

ÍR-ingar stóðu uppi sem sigurvegarar á Meistaramóti Íslands í flokkum 15-22 ára í frjálsum íþróttum sem fram fór í Laugardalshöll um helgina.

ÍR vann heildarstigakeppnina eftir harða keppni við HSK. ÍR hlaut 368,5 stig en á eftir fylgdu lið HSK/Selfoss með 318 stig og lið Breiðabliks varð í þriðja sætinu með 235 stig.

Ásamt því að vinna Íslandsmeistaratitilinn fengu ÍR-ingar lang-flest verðlaunin á mótinu, en alls unnu ÍR-ingar 22 gullverðlaun, 18 silfurverðlaun og 15 bronsverðlaun.

Árangur keppenda var góður og mörg met sett. Fyrst er að telja fimm aldursflokkamet þar sem efnilegar stúlkur komu við sögu:

  • Sveit ÍR í 4x200m boðhlaupi 16-17 ára stúlkna bætti met í flokkum stúlkna 16-17 ára, 18-19 ára og 20-22 ára þegar þær hlupu sprettina fjóra á 1:40,25s. Sveitina skipuðu Tiana Ósk Whitworth, Dagbjört Lilja Magnúsdóttir, Helga Margrét Haraldsdóttir og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir.
  • Tiana Ósk Whitworth, ein hlauparanna úr metsveitinni, bætti einnig met í flokki 16-17 ára stúlkna í 60m hlaupi þegar hún hljóp á 7,60s.
  • Birna Kristín Kristjánsdóttir úr Breiðabliki bætti met í flokki 15 ára í 60m grindahlaupi þegar hún hljóp yfir grindurnar á 8,87s.
  • Erna Sóley Gunnarsdóttir úr Aftureldingu bætti met í flokki 16-17 ára stúlkna þegar hún kastaði 3kg kúlunni 15,65m.
  • Síðast en ekki síst bætti Thelma Rós Hálfdánardóttir úr FH ferskt met sitt í stangarstökki 15 ára stúlkna þegar hún stökk yfir 3,31m.
  • Frekara yfirlit yfir langan og glæsilegan lista meta má finna á úrslitavefnum Þór, sjá HÉR
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert