Arnhildur sextánda á HM

Birgit og Arnhildur.
Birgit og Arnhildur. Ljósmynd/kraft.is

Í dag kepptu þær Arnhildur Anna Árnadóttir og Birgit Rós Becker á heimsmeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum. Báðar kepptu þær í 72 kg flokki þar sem Arnhildur hafnaði í 16. sæti í samanlögðum árangri, en Birgit tókst ekki að fá gilda réttstöðulyftu og féll því miður úr keppni.

Birgit byrjaði mótið vel og jafnaði sitt eigið Íslandsmet í hnébeygju í annarri tilraun með 165 kg, en 167,5 kg í þriðju tilraun reyndist of mikið í dag. Í bekkpressu bætti hún sinn besta árangur um 2,5 kg með því að lyfta 80 kg. Réttstaðan fór ekki jafn-vel. Þar reyndi Birgit þrívegis við 157,5 kg. Í fyrstu tilraun fékk hún ógilt vegna tæknivillu, í annarri var aflið ekki til staðar og í þeirri þriðju fékk hún svo aftur ógilt vegna tæknivillu. Henni tókst því ekki að fá skráðan samanlagðan árangur og féll úr leik í heildarkeppninni.

Arnhildur byrjaði líka vel. Hún lyfti 152,5 kg í annarri tilraun og reyndi að bæta sinn besta árangur í þeirri þriðju með 157,5 kg, sem reyndist aðeins of þungt í dag. Í bekkpressunni fór Arnhildur upp með 80 kg í fyrstu tilraun og mistókst svo tvívegis með 82,5 kg. Í réttstöðunni tókst henni að lyfta 165 kg en meiddist við framkvæmd lyftunnar og varð að hætta keppni. Þrátt fyrir meiðslin var hún aðeins 10 kg frá sínum besta árangri með 397,5 kg samanlagt. Hún hafnaði með þeim árangri í 16. sæti í flokknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert