Önnur gullverðlaun heimsmeistarans

Kjeld Nuis með gullverðlaunapeninginn.
Kjeld Nuis með gullverðlaunapeninginn. AFP

Hollendingurinn Kjed Nuis vann í dag sín önnur gullverðlaun á Vetrarólympíuleikunum í Pyeongchang í S-Kóreu.

Nuis, sem er tvöfaldur heimsmeistari og vann sigur í 1.500 skautahlaupinu á þriðjudaginn, varð hlutskarpastur í 1.000 metra skautahlaupi og tryggði þar með Hollendingum sjöundu gullverðlaunin í skautahlaupi á leikunum.

Norðmaðurinn Havard Lorentzen, sem vann gullverðlaunin í 500 metra skautahlaupinu á mánudaginn, vann silfurverðlaunin og bronsverðlaunin féllu S-Kóreumanninum Kim Tae-yun í skaut.

Nuis, sem ekki var valinn í hollenska landsliðið fyrir leikana í Sochi fyrir fjórum árum, varð heimsmeistari í 1.000 og 1.500 metra skautahlaupinu á HM í Gangneung á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert