Björninn vann meistarana í maraþonleik

Jussi Sipponen hjá SA og Kristján Kristinsson, Birninum, eigast við …
Jussi Sipponen hjá SA og Kristján Kristinsson, Birninum, eigast við í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Björninn gerði sér lítið fyrir og vann 5:4-sigur á Íslandsmeisturum SA í Hertz-deild karla í íshokkíi í kvöld. Staðan eftir venjulegan leiktíma og framlengingu var 4:4 og réðust úrslitin því í vítakeppni. í vítakeppninni var Björninn ögn sterkari og vann 4:3 og þar með 5:4-sigur.

Jóhann Már Leifsson kom SA yfir á 13. mínútu en Falur Guðnason jafnaði á 18. mínútu og var staðan 1:1 eftir fyrsta leikhluta. Andri Mikaelsson og Bjartur Gunnarsson komu SA í 3:1 í öðrum leikhluta og var staðan Íslandsmeistaranna vænleg. 

Björninn gafst hins vegar ekki upp því Kristers Bormanis minnkaði muninn á lokamínútu annars leikhluta og hann var svo aftur á ferðinni í þriðja leikhluta til að jafna í 3:3. Jordan Steger kom SA enn og aftur yfir á 48. mínútu en Andri Helgason jafnaði fyrir Björninn undir lokin og tryggði liðinu framlengingu. 

SA er enn á toppi deildarinnar nú með 20 stig, en eitt stig fæst fyrir tap eftir venjulegan leiktíma. Björninn fékk tvö stig fyrir sigurinn og er nú með sjö stig, enn í þriðja og neðsta sæti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert