Nadal í úrslit og gæti brotið blað í sögunni

Rafael Nadal fagnar sætinu í úrslitum.
Rafael Nadal fagnar sætinu í úrslitum. AFP

Spánverjinn Rafael Nadal er einum sigri frá því að ná sögulegum árangri í tennisheiminum eftir að hann tryggði sér sæti í úrslitaleik Opna ástralska meistaramótsins í morgun.

Nadal vann þá hinn tvítuga Stefanos Tsitsipas í þremur settum, 6:2, 6:4 og 6:0, og mun leika til úrslita í fimmta sinn á þessu fyrsta risamóti ársins. Hann hefur einu sinni unnið þetta mót, en það var árið 2009. Þetta verður í 25. sinn sem hann spilar til úrslita á risamóti, en aðeins Roger Federer hefur gert það oftar eða 30 sinnum. Nadal er með 17 risatitla á ferilskránni.

Með sigri í úrslitaleiknum á sunnudag mun Nadal verða sá eini sem hefur unnið öll risamótin fjögur í það minnsta tvisvar eftir að fyrirkomulagi risamótanna var breytt árið 1968.

Nadal mun mæta annaðhvort Novak Djokovic eða Lucas Pouille í úrslitaleiknum á sunnudag, en þeir mætast í sinni undanúrslitaviðureign á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert