Hársbreidd frá verðlaunasæti

Anton Sveinn McKee var hársbreidd frá verðlaunum í 200 metra …
Anton Sveinn McKee var hársbreidd frá verðlaunum í 200 metra bringusundi. Ljósmynd/Sundsamband Íslands

Anton Sveinn McKee hafnaði í fjórða sæti í 200 metra bringusundi á EM í sundi í 25 metra laug sem fram fer í Glasgow í Skotlandi í dag. Anton kom í mark á tímanum 2:02,94 og var einungis sjö hundraðshlutum úr sekúndu á eftir Þjóverjanum Marco Koch sem hafnaði í þriðja sæti.

Arno Jamminga frá Hollandi kom fyrstur í mark á tímanum 2:02,36 og Erik Persson frá Svíþjóð hafnaði í öðru sæti á tímanum 2:02,8. Anton Sveinn hefur farið á kostum á EM í Glasgow og bætt hvert Íslandsmetið á fætur öðru.

Anton bætti Íslandsmetið í 200 metra bringusundi í undanrásum í morgun og hann bætti það enn frekar í úrslitasundinu í dag. Þá bætti Anton gamla Norðurlandametið í greininni í úrslitum sem var 2:03,26 en Svíinn Erik Persson á nú metið eftir úrslitasundið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert