Gerir okkur kleift að hugsa stórt og stærra

Elísa Viðarsdóttir í leiknum gegn Írlandi á föstudaginn.
Elísa Viðarsdóttir í leiknum gegn Írlandi á föstudaginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu verður stöðugt betra eftir því sem fleiri leikmenn gerast atvinnumenn hjá stórum og sterkum liðum erlendis.

„Þessar ungu stelpur eru frábærar í fótbolta, það er gaman að fá þessa blöndu af ungum og eldri leikmönnum,“ sagði Elísa Viðarsdóttir í samtali við mbl.is á blaðamannafundi í dag. Íslenska landsliðið vann 3:2-sigur gegn Írlandi í vináttulandsleik á Laugardalsvellinum á föstudaginn og liðin mætast aftur á sama velli á þriðjudaginn.

Íslenska landsliðshópinn skipa yngri og reyndari leikmenn í bland en nokkra reynda leikmenn vantar. Guðný Árna­dótt­ir og Hlín Ei­ríks­dótt­ir eru meidd­ar og fyr­irliðinn Sara Björk Gunn­ars­dótt­ir er barns­haf­andi eins og kunn­ugt er.  Elísa segir það gleðiefni að fá unga og efnilega leikmenn inn, enda fara ungar knattspyrnukonur í auknum mæli út í atvinnumennsku til öflugra liða um alla Evrópu.

„Eftir því sem fleiri stelpur fara út og í betri lið þá að sjálfsögðu verða gæðin meiri innan hópsins. Það er gleðiefni að fá svona margar stelpur út, gerir okkur betri og gerir ungum stelpum kleift að hugsa stórt og stærra. Við erum líka ekki bara að senda stelpur eitthvert út, þær eru að fara í stórlið í Evrópu.“

Ísland hef­ur nú spilað þrjá vináttu­leiki und­ir stjórn Þor­steins Hall­dórs­son­ar en hann tók við þjálf­un landsliðsins í vet­ur. Leik­ur­inn á þriðju­dag­inn verður svo síðasti vináttu­leik­ur­inn áður en Ísland mæt­ir Hollandi í undan­keppni HM á Laug­ar­dals­velli í sept­em­ber. Elísa segir að hópurinn verður klár í undankeppnina.

„Við fengum frábært verkefni á Ítalíu þar sem við spilum tvo leiki gegn erfiðu liðið og vorum minna með boltann. Núna erum við meira með boltann gegn Írum og getum séð hvar við stöndum. Við getum byggt ofan á þetta. Steini og Ási eru að koma sínum áherslum á framfæri og við erum móttækilegur hópur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert