Gífurleg stemmning í Wroclaw

Guðjón Valur Sigurðsson og Ólafur Stefánsson í upphitun fyrir leikinn …
Guðjón Valur Sigurðsson og Ólafur Stefánsson í upphitun fyrir leikinn í Wroclaw í kvöld. Jonas Ekströmer / Scanpix

Pólskir áhorfendur eru heldur betur með á nótunum fyrir leik Íslands og Póllands í undankeppninni fyrir handknattleikskeppni Ólympíuleikanna, sem hefst í Wroclaw klukkan 18.15.

Allt frá því leik Svíþjóðar og Argentínu lauk uppúr klukkan 17.20 hafa áhorfendur sungið og skemmt sér konunglega á pöllunum og stemmningin í höllinni hefur aukist með hverri mínútu. Miðað við hvernig lætin voru í gærkvöld á leik Póllands og Svíþjóðar er ljóst að hér mun ekki heyrast mannsins mál þegar flautað verður til leiks.

Lið Íslands og Póllands komu útá gólfið til að hita upp fljótlega eftir að hinum leiknum lauk.

Íslenska liðið tryggir sér sæti á Ólympíuleikunum, takist því að sigra í kvöld. Ef Pólverjar vinna leikinn nægir þeim jafntefli gegn Argentínu á morgun til að gulltryggja sér Ólympíusætið. Þá myndi Svíum að sama skapi nægja jafntefli gegn Íslandi í hreinum úrslitaleik þjóðanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert