Jóhann: Var drullustressaður

„Það er gaman að vera kominn í leikinn á nýjan leik," sagði Jóhann Gunnar Einarsson, leikmaður Aftureldingar, sem skoraði fimm mörk í sigurleik Aftureldingar á Stjörnunni í fyrstu umferð Olísdeildar karla í handknattleik í kvöld. Jóhann lék í kvöld sinn fyrsta í úrvalsdeildinni í hálf annað ár eða frá því að hann varð Íslandsmeistari með Fram vorið 2013.

„Mér leið eins og þegar ég spilaði minn fyrsta meistaraflokksleik," sagði Jóhann Gunnar glaðbeittur í leikslok í Aftureldingarpeysunni. „Nú er ég kominn í nýtt lið og vildi sanna mig fyrir áhorfendum. Ef ég á að vera hreinskilinn þá var ég drullustressaður fyrir leikinn en núna líður mér vel. Sigurtilfinningin er alltaf góð og það er langt síðan ég hef fundið fyrir henni," sagði Jóhann Gunnar. 

„Það hefði verið rán ef Stjarnan hefði fengið eitthvað úr þessum leik. Við vorum alltaf yfir og síðan small allt saman hjá okkur í lokin," sagði Jóhann Gunnar Einarsson, leikmaður Aftureldingar en nánar er rætt við hann á meðfylgjandi myndskeiði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert