Ferillinn á enda eftir hjartastopp

Joacim Ernstsson liggur hér á gólfinu eftir að hafa orðið …
Joacim Ernstsson liggur hér á gólfinu eftir að hafa orðið hjartastopp. Ljósmynd/tv4

Sænski handknattleiksmaðurinn Joacim Ernstsson fékk hjartastopp í leik með liði sínu, Lugi, í leik á móti Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni í síðustu viku og nú er ljóst að hann verður að leggja skóna á hilluna.

„Ég fór í aðgerð í gær og læknar komu fyrir gangráði,“ segir Ernstsson við sænska blaðið Expressen þar sem hann segist hafa spilað sinn síðasta handboltaleik. „Það gengur ekki að halda áfram. Læknarnir leyfa mér það ekki.“

Ernstsson hné niður eftir 14 mínútna leik og læknir Lugi-liðsins varð bjargvættur leikmannsins en hann náði að bjarga lífi Ernstssons með því að nota hjartastuðtæki.

Ernstsson er 32 ára gamall og á að baki leiki með U21 ára liði Svía og öllum yngri landsliðunum. Hann hefur spilað með Lugi frá árinu 2012 en lék áður í Danmörku með Kolding og Tvis Holstebro.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert