„Þetta er ferlega svekkjandi“

Elías Már Halldórsson, Haukum, reynir markskot í leik við ÍBV …
Elías Már Halldórsson, Haukum, reynir markskot í leik við ÍBV fyrir skömmu. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Elías Már Halldórsson leikur ekki með Íslandsmeisturum Hauka í handknattleik næst  sex til átta vikur, hið minnsta. Hann meiddist undir lok leiks Hauka og Gróttu í Olís-deildinni á síðasta fimmtudag. Við skoðun hjá lækni í morgun var staðfest að liðþófi í öðru hné er skaddaður og þarf á viðgerða að halda. 

„Þetta er ferlega svekkjandi,“ sagði Elías Már við mbl.is fyrir stundu þegar hann staðfesti fregnirnar um meiðslin.  Elías Már fer í speglun í fyrramálið og síðan verður tíminn að leiða í ljós hvenær hann  verður klár í slaginn á nýjan leik. „Ég reikna með að verða frá keppni í sex til átta vikur hið minnsta,“ sagði Elías Már sem var eðlilega vonsvikinn yfir ástandinu. Ef allt gengur að óskum hér eftir gæti Elías Már náð síðustu leikjum Hauka í desember áður en hlé verður gert á keppni í Olís-deildinni vegna þátttöku íslenska landsliðsins í Evrópukeppninni í Póllandi í janúar. 

Elías Már hefur leikið vel með Haukum til þessa í deildinni og einnig í Evrópukeppninni. Hann er m.a. markahæsti leikmaður Hauka í deildinni ásamt Janusi Daða Smárasyni en þeir hafa skorað 33 mörk hvor.

Haukar mæta ÍR-ingum í Schenkerhöllinni á Ásvöllum á föstudaginn og Aftureldingu á útivelli á mánudagskvöld áður en liðið leikur tvo leiki á heimavelli við HC Zomimak frá Makedóníu í annarri umferð EHF-keppninnar um aðra helgi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert