Guðmundur á förum frá Mors-Thy?

Guðmundur Árni Ólafsson er líklega á förum frá Mors-Thy.
Guðmundur Árni Ólafsson er líklega á förum frá Mors-Thy. Styrmir Kári

Guðmundur Árni Ólafsson, leikmaður danska handknattleiksliðsins Mors-Thy, virðist vera á förum frá félaginu ef marka má frétt Morso Folkeblads í dag en þar segir að hann hafi óskað eftir því að rifta samningnum.

Hornamaðurinn öflugi kom til félagsins frá Bjerringbro/Silkeborg árið 2013 og hefur spilað mikilvæga rullu í liðinu síðan.

Hann hefur verið með annan fótinn í landsliðinu síðustu ár en hann var þó ekki í 18 manna landsliðshópnum sem fór á Evrópumótið í Póllandi.

Guðmundur er með samning við Mors-Thy til ársins 2017 en það er þó klásúla í samningnum sem segir að hann megi rifta samningnum. Þetta er ekki fyrsta tilfellið hjá félaginu þar sem leikmenn eru með slíka klásúlu en leikmenn á borð við Jesper Meinby, Jac Karlsson og Asbjorn Madsen hafa allir nýtt sér sama ákvæði.

Hann vildi lítið sem ekkert tjá sig við blaðið um málið en hann sagði ef að eitthvað gerist í hans málum þá er það milli hans og félagsins.

Mors-Thy kveður tvo gríðarlega öfluga menn eftir tímabilið en þeir Tobias Ellebæk og Jonas Porup yfirgefa liðið í sumar. Þá fór Agnar Smári Jónsson frá liðinu til ÍBV á dögunum en samtals verða 12 leikmenn eftir í hópnum þegar tímabilið klárast. Róbert Aron Hostert er einnig á mála hjá Mors-Thy.

Mors-Thy er í 10. sæti deildarinnar með 15 stig eftir 19 umferðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert