„Margt sem getur gerst á stuttum tíma“

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH.
Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH. Eggert Jóhannesson

„Við vorum geggjaðir í kvöld. Mér fannst við vera góðir allan leikinn og sérstaklega fyrstu 40 mínúturnar,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, eftir öruggan sigur sinna manna á Selfossi í Olís-deild karla í handbolta í kvöld.

FH-ingar sigruðu, 24:35, og lyftu sér upp í 2. sæti deildarinnar, um stundarsakir að minnsta kosti, með 18 stig.

„Við erum komnir með með þrettán marka forskot þegar 38 mínútur eru búnar af leiknum. Það er erfitt að halda einbeitingu þegar menn eru komnir svona langt yfir, en við náðum að halda henni og klára leikinn virkilega með sóma,“ sagði Halldór.

FH lagði grunninn að sigrinum með frábærum fyrri hálfleik og þeir gerðu svo endanlega út um leikinn á fyrstu tíu mínútum síðari hálfleiks.

„Það var níu marka munur í hálfleik og þú þarft ekki nema að missa það forskot niður í fimm mörk, þá færðu pressu á þig og húsið kemur með. Það er svo margt sem getur gerst á stuttum tíma, þannig að það var mikilvægt fyrir okkur að byrja seinni hálfleikinn af krafti og halda fókus,“ sagði FH þjálfarinn sáttur í lokin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert