Ákvörðun mótanefndar HSÍ stendur

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir skorar fyrir Gróttu í leiknum gegn Stjörnunni …
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir skorar fyrir Gróttu í leiknum gegn Stjörnunni á sunnudaginn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ákvörðun mótanefndar HSÍ frá því í gær þar sem Gróttu var dæmdur 10:0 sigur gegn Stjörnunni í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Olís-deildar kvenna í handknattleik stendur en Stjarnan tefldi fram leikmanni í leiknum sem ekki var á leikskýrslu.

Stjarnan óskaði eftir því mótanefnd HSÍ í gærkvöldi að nefndin tæki til endurskoðunar ákvörðun sína og kom mótanefndin saman í dag.

Niðurstaða mótanefndarinnar eftir þann fund er svohljóðandi;

„Mótanefnd HSÍ hefur móttekið bréf Stjörnunnar frá 25. apríl 2017, þar sem óskað er eftir að mótanefnd endurskoði ákvörðun um úrslitin 10:0 í leik Gróttu og Stjörnunnar í mfl. kv. sem leikinn var 23.04.2017. 

Það er mat mótanefndar að í bréfi Stjörnunnar komi ekki neitt nýtt fram sem kalli á að endurskoðun á ákvörðun mótanefndar. 

Ákvörðun mótanefndar, sem útgefin var þann 24.04.2017 um að Stjarnan tapi leiknum 0:10 stendur. Er bent á að hlutaðeigandi getur kært ákvörðun mótanefndar til dómstóls HSÍ innan 24 tíma frá því að tilkynning um hana berst.“

Grótta er því 2:0 yfir í einvíginu og með sigri í Mýrinni í kvöld í þriðja leik liðanna tryggir liðið sér farseðilinn í úrslitin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert