Við sátum uppi með vandann

Unnur Ómarsdóttir, leikmaður Gróttu, t.v. sækir að Hönnu Guðrúnu Stefánsdóttur …
Unnur Ómarsdóttir, leikmaður Gróttu, t.v. sækir að Hönnu Guðrúnu Stefánsdóttur Stjörnukonu í viðureign liðann í TM-höllinni í Garðabæ í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Við vorum bara ekki með einbeitinguna við leikinn. Umræðan síðasta sólarhring fór illa í okkur og fyrir vikið lékum við ekki okkar leik. Klúðruðum endalaust og lékum alltaf boltanum inn á miðjuna. Fyrir vikið skoruðum við aðeins 14 mörk sem dugir ekki til þess að vinna handboltaleik,“ sagði Unnur Ómarsdóttir, leikmaður Gróttu, eftir fimm marka tap liðsins fyrir Stjörnunni, 19:14, í þriðja undanúrslitaleik liðanna Íslandsmótinu í handknattleik í TM-höllinni í Garðabæ í kvöld.

„Við vorum hver í sínu horni á sama tíma og Stjörnuliðið var með stemninguna með sér, innan vallar sem utan.  Við náðum aldrei okkar leik. Stjörnuliðið var með leikinn í sínum höndum frá upphafi til enda ef undan eru skildar örfáar mínútur í hvorum hálfleik,“ sagði Unnur sem var afar vonsvikin og skal engan undra.

„Við gerðum okkur alveg grein fyrir að leikmenn Stjörnunnar myndu mæta brjálaðar til leiks. Þær urðu að vinna til þess að vera ekki úr leik. Við vorum líka staðráðnar í að mæta þeim og sýna þeim  að við ættum það skilið að vera tvö núll yfir í einvíginu en náðum okkur engan veginn á strik,“ sagði Unnur sem vonast til að málið vegna sigursins, sem Gróttu-liðinu var úrskurðaður eftir viðureignina á sunndaginn, verði að baki þegar liðin mætast á ný á fimmtudagskvöldið á Seltjarnarnesi, að leikmönnum takist að núllstilla sig.

„Ég vona að málið verði að baki. Okkur leið mjög illa yfir þessu öllu saman. Það var ekki okkar ósk að vinna leik á úrskurði eftir að hafa tapað inni á leikvellinum. Mig langaði ekki til þess að málið tæki þessa stefnu, engin okkar stjórnaði framvindu málsins. Okkur leið illa út af þessu. Því miður þá fengum við yfir okkur skítkast. Best hefði verið að úrslit leiksins á sunnudaginn hefðu staðið og hvort lið hefði verið með einn vinning fyrir viðureignina í kvöld.

Málið var ekki í okkar höndum en við sátum uppi með það og fengum samviskubit vegna þess. Við viljum bara spila handbolta og standa og falla með frammistöðu okkar inni á leikvellinum,“ sagði Unnur Ómarsdóttir, leikmaður Gróttu, af hreinskilni í samtali við mbl.is eftir tapið í Garðabæ í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert