Get ekki beðið um meira

Lærisveinar Einars Andra eru úr leik eftir tap gegn FH.
Lærisveinar Einars Andra eru úr leik eftir tap gegn FH. mbl.is/Árni Sæberg

Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, var svekktur en einnig stoltur eftir 23:19 tap liðsins gegn FH í undanúrslitum Olís-deildar karla í handbolta. Afturelding hefur þar með lokið keppni í vetur.

„Það er erfitt svona stuttu eftir leik að greina hvað skilur á milli. Við förum með þrjú hraðupphlaup og svo eru svona litlir hlutir sem verða til þess að við töpum þessum leik í kvöld. Við vorum að leggja okkur alla fram og gefa allt í þetta.“

„Ágúst Elí ver dauðafærin okkar og svo þegar við reynum að fara sjö gegn sex undir lokin, þá er það ekki alveg að virka. Þá hikuðu menn, fóru ekki nógu ákveðið í færin sín og þessi nýting reyndist okkur ansi dýr.“

„Það vantar þrjá lykilmenn í liðið hjá okkur [Birkir Benediktsson, Pétur Júníusson, Böðvar Páll Ásgeirsson] en ég vil ekki nota það sem afsökun. FH spilaði bara betur en við og við verðum bara að nota það sem er til staðar,“ sagði Einar.

Afturelding byrjaði mótið af krafti en kom hálfhaltrandi inn í úrslitakeppnina. Einar Andri segist stoltur af frammistöðu sinna manna.

„Við spiluðum frábærlega fyrir jól. Við förum í úrslit í deildarbikar, úrslit í bikarkeppninni og svo í undanúrslit á Íslandsmótinu og þetta gerum við þrátt fyrir að lenda í ýmsum áföllum. Það er auðvitað súrt að tapa en ég veit ekki hvað ég get beðið um meira frá þessum strákum.

En skyldi þjálfarinn eitthvað vera að hugsa sér að leita á önnur mið?

„Nei nei, ég verð áfram,“ sagði Einar Andri að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert