Við vorum mjög góðir

„Við bjuggum okkur afar vel undir þennan leik og það skilaði sér. Við vorum mjög góðir,“ sagði Ísak Rafnsson, einn leikmanna FH, eftir stórsigur liðsins á Íslandsmeisturum Vals, 33:21, í Valshöllinni í kvöld í 7. Umferð Olís-deildar karla í handknattleik.

„Það sem lagt var upp með af okkar hálfu að þessu sinni gekk nánast fullkomlega upp.  Þegar við leggjum okkur allir fullkomlega fram í leikina þá erum við illviðráðanlegir,“ sagði Ísak en FH-liðið er eina taplausa lið deildarinnar eftir sjö umferðir í Olís-deildinni.

Eftir tíu marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 15:5, þá slakaði FH-liðið ekki á klónni í síðari hálfleik og náði mest 13 marka forskot. „Við vissum að Valsmenn myndu freista þess að koma til baka og gera áhlaup en við vorum vel undir það búnir og gáfum ekkert eftir,“ sagði Ísak Rafnsson sem fór á kostum í vörn FH-liðsins í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert