Stefán fagnaði sigri gegn Aroni

Stefán Rafn Sigurmannsson.
Stefán Rafn Sigurmannsson. mbl.is/Eva Björk

Stefán Rafn Sigurmannsson og lið hans Pick Szeged frá Ungverjalandi unnu nokkuð óvæntan sigur gegn Aroni Pálmarssyni og félögum í Barcelona í A-riðli Meistaradeildar Evrópu í handknattleik í dag.

Stefán Rafn og félagar voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 16:13, og þegar yfir lauk munaði einnig þremur mörkum á liðunum, 31:28. Stefán Rafn skoraði sex mörk, öll af vítalínunni, og var næstmarkahæstur hjá Pick Szeged en Aron skoraði þrjú mörk fyrir Barcelona.

Sigurinn kemur Stefáni og félögum upp í 9 stig í riðlinum, en Barcelona er með 10 stig. Bæði ættu að vera örugg um að komast í 16-liða úrslit, en topplið Vardar er með 15 stig á toppnum. Efsta lið riðilsins fer beint í 8-liða úrslit.

Það var annar Íslendingaslagur í C-riðli þar sem Skjern vann Elverum 35:25. Tandri Már Konráðsson skoraði ekki fyrir Skjern og Þráinn Orri Jónsson ekki heldur fyrir Elverum, en Skjern er á toppi riðilsins með 12 stig en Elverum hefur 8 stig.

Þá unnu lærisveinar Alfreðs Gíslasonar hjá Kiel útisigur gegn Celja Lasko frá Slóveníu, 28:27, og komu þar fram hefndum frá tapinu í síðustu umferð. Kiel er með 7 stig í afar jöfnum B-riðli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert