Auðvelt að verða góður

Gunnar Gunnarsson, þjálfari Víkings.
Gunnar Gunnarsson, þjálfari Víkings. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gunnari Gunnarssyni, þjálfara Víkings R., var að vonum ekki skemmt eftir að hans menn töpuðu stórt, 30:19, gegn Gróttu í 10. umferð Olísdeildar karla í handknattleik og duttu í leiðinni niður í botnsætið.

„Þetta var ekki gott, eftir ágætis fyrri hálfleik byrjum við seinni afleitlega. Þeir eiga 8:2 kafla fyrstu 10 mínúturnar í seinni hálfleik og þá förum við að elta þetta og náum aldrei takti. Við fáum á okkur 18 mörk í seinni hálfleik og vorum ekki góðir sóknarlega.“

Heimamenn voru 12:9 yfir eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik en í þeim seinni náðu Gróttumenn hreinlega að valta yfir steinrunna Víkinga og var Gunnar ósáttur með einbeitingu sinna manna.

„Við komum bara ekki nógu einbeittir sóknarlega, náum ekki að skora mark fyrstu fimm mínúturnar á meðan þeir fá auðveld mörk. Svo fara menn að taka óþarfa áhættu þegar við missum þá fram hjá okkur. Ég tek ekkert af Hreiðari samt, hann ver fullt af boltum þarna í byrjun seinni hálfleiks og við klúðrum 3-4 vítaköstum.“

Hreiðar Levý varði mikið af dauðafærum í kvöld og hrósaði Gunnar honum í hástert en sagði að menn megi ekki vera hræddir að skjóta á markmenn þótt þeir séu góðir.

„Hann er góður markvörður, það er bara þannig. Davíð var að verja vel hjá okkur í fyrri hálfleik og þeir voru svipaðir þar en svo dettur vörnin niður hjá okkur í seinni. Hreiðar hefur sýnt það í sínum leikjum að hann er hörku markmaður, þú verður auðvitað að bera virðingu fyrir þannig manni en þú mátt ekki vera hræddur við hann.“

Víkingar spiluðu vel í síðustu umferð og náðu í jafntefli gegn Haukum en náðu ekki að fylgja því eftir í kvöld. Gunnar segir erfitt að halda stöðugleika með svo ungt lið.

„Það er nú bara þannig oft með unga leikmenn að þegar menn eiga góðan leik þá er erfitt að fylgja því eftir, reynsla hefur mikið að segja í þessu. Það er auðvelt að verða góður en erfitt að vera góður, það er það sem við erum að reyna vinna í. Þegar menn eiga svona góða leiki eins og á móti Haukum þá verðum við að finna stöðugleika til að halda því.“

„Við þurfum að halda áfram að vinna í okkar málum. Það var vitað fyrir fram að þetta yrði erfitt en við verðum að reyna kroppa stig hér og þar og sjá hvar það skilar okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert