„Þetta var kannski örþrifaráð“

Patrekur Jóhannesson var kampakátur eftir ævintýranlegan sigur í kvöld.
Patrekur Jóhannesson var kampakátur eftir ævintýranlegan sigur í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var frábært. Við gefumst aldrei upp. Haukarnir voru flottir. Þeir eru með massíft lið og mikla reynslu. Ég vildi bara vinna þennan leik,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, eftir ótrúlegan sigur Selfyssinga á Haukum í Olísdeild karla í handbolta í kvöld.

Þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum leiddu Haukar 22:25 og virtust hafa leikinn í hendi sér. Selfyssingar skiptu þá í maður-á-mann vörn og tókst að stela boltanum þrisvar sinnum. Stór markvarsla frá Sölva Ólafssyni þegar 35 sekúndur voru eftir gerði út um vonir Hauka og Elvar Örn Jónsson skoraði sigurmark Selfoss þegar tvær sekúndur voru eftir, 26:25.

„Staðan er 22:25 og við förum þá í ákveðna vörn sem við höfum svo sem spilað áður. Þetta var kannski örþrifaráð. Stundum heppnast það og stundum ekki. Ef við hefðum tapað með sjö þá hefðu margir spurt hvern djöfulinn þjálfarinn væri að spá að reyna þetta. Núna heppnaðist það en það hefði alveg getað farið í hina áttina, ég viðurkenni það,“ sagði Patrekur kampakátur í samtali við mbl.is eftir leik.

„Mér fannst við stjórna þessum leik í fyrri hálfleik, komumst í 11:7 og hefðum getað komist í 12:7 en klúðrum því og þeir jafna. Haukar skora fjórtán mörk í fyrri hálfleik og þar eru hátt í tíu mörk úr hraðaupphlaupum eða hraðri miðju. Þetta var eitthvað sem við vissum fyrir leik. Svo var Bjöggi [Páll Gústavsson] massívur í markinu. Hann varði allt of mikið. Stundum varði hann mjög vel en stundum líka allt of auðvelda bolta,“ sagði Patrekur enn fremur og þreyttist ekki á að lofa Björgvin Pál, sem var besti maður Hauka í kvöld.

„Bjöggi er góður í marki. Það er ekki eitthvað sem mér finnst bara. Hann var frábær og mjög öruggur. Það er eitthvað sem ég vil kenna markvörðunum hjá mér. Hann var mjög afslappaður og með sjálfstraustið í lagi. Stundum voru menn búnir að ákveða hvar þeir ætluðu að skjóta á hann og hann las það. Við lærum bara af því.“

Það var frábær stemmning í íþróttahúsinu á Selfossi í kvöld og allt á suðupunkti í leikslok. Sigurinn var líka mikilvægur fyrir Selfyssinga sem slitu sig aðeins frá Haukum, sitja í 3. sæti með 26 stig en Haukar í 4. með 23 stig.

„Þetta var góður handboltaleikur. Fullt hús og ógeðslega gaman. Við gleðjumst yfir þessum sigri. Það eru frábærir gæjar í þessu Haukaliði með mikla reynslu og það er gott fyrir okkar menn að spila á móti þeim og hvað þá að vinna. Það er ekki spurning að þetta voru mikilvæg tvö stig. Haukarnir eru búnir að vera á miklu flugi. Þeir eru meistarakandídatar ásamt ÍBV,“ sagði Patrekur.

Og Selfoss?

„Við erum að berjast við að vera í 3.-4. sæti og gætum endað í fimmta. Það yrði enginn heimsendir heldur. Okkur var spáð 7. sæti fyrir mót. Auðvitað tökum við bara einn leik í einu. Við erum ekkert farnir á flug. Við eigum Gróttu næst í deildinni og svo ÍBV áður en við förum inn í bikarhelgina. Það er bara gaman að við séum að berjast á öllum vígstöðvum og ég er fyrst og fremst ánægður fyrir hönd strákanna að geta spilað svona góðan handbolta. Þetta eru allt ungir heimamenn, auk Atla Ævars. Auðvitað mun ég finna eitthvað sem við getum lagað, en þeir mega gleðjast í kvöld,“ sagði Patrekur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert