Danskur landsliðsmaður andar léttar

Anders Zachariassen fagnar marki gegn Frökkum á EM í janúar.
Anders Zachariassen fagnar marki gegn Frökkum á EM í janúar. AFP

Það bárust góðar fréttir í dag úr herbúðum þýska stórliðsins Flensburg í handknattleik þegar í ljós kom að danski línumaðurinn Anders Zachariassen væri ekki alvarlega meiddur eins og óttast var.

Zachariassen meiddist á hné í upphitun fyrir leik Flensburg og PSG í Meistaradeild Evrópu um síðustu helgi, en hann lenti þá í samstuði við liðsfélaga sinn og landa sinn Lasse Svan. Óttast var að um alvarleg hnémeiðsli væri að ræða.

Zachariassen gekkst hins vegar undir myndatöku í dag þar sem í ljós kom að höggið hefði ekki leitt af sér mikinn skaða og ætti hann því ekki að vera frá æfingum nema í nokkra daga.

Zachariassen er 26 ára gamall og hefur leikið með Flensburg frá árinu 2014, en hann var í eldlínunni með Dönum á Evrópumótinu í Króatíu í síðasta mánuði þar sem danska landsliðið hafnaði í fjórða sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert