Getur verið jákvætt að berja sig frá botninum

Halldór Harri Kristjánsson á hliðarlínunni í kvöld.
Halldór Harri Kristjánsson á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Halldór Harri Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, var svekktur eftir 26:25-tap gegn toppliði Vals í Olísdeild kvenna í handbolta í kvöld. Stjarnan var yfir nánast allan leikinn, en missti af stigunum tveim í blálokin.

„Sóknarnýtingin var léleg síðustu 15 mínúturnar og það varð okkur að falli. Síðustu mínúturnar voru lélegar. Heilt yfir er margt jákvætt en við áttum að fá eitthvað út úr þessu í dag, það er klárt mál.“

Hann segist ekki hafa orðið var við að sitt lið hafi orðið hrætt við að tapa leiknum.

„Mér fannst það ekki. Auðvitað vildum við vinna þennan leik og það kom smá stress í lokin en það var ekki hræðsla í því. Það eru reyndir leikmenn innan borðs. Úrræðin og skotin urðu léleg í lokin og á sama tíma vorum við að fá einföld mörk á okkur. Stemningin var betri í þessum leik en hún hefur verið.“

Stjarnan verður ekki með í úrslitakeppninni í ár. Halldór er staðráðinn í að Stjarnan komi sterkari til baka. 

„Þetta er búið að vera erfitt tímabil með mikið af meiðslum og mikilvægir leikmenn að detta út. Þetta er búið að vera erfitt og við höfum ekki náð okkur á strik. Við þurfum að vinna úr því og við þurfum að gera það vel. Það getur verið jákvætt að berja sig frá botninum stundum,“ sagði Halldór. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert