Ekkert lát á ævintýri Nantes

David Balaguer Romeu og Nicolas Tournat, leikmenn Nantes, fagna marki …
David Balaguer Romeu og Nicolas Tournat, leikmenn Nantes, fagna marki í sigurleiknum á Paris SG í Köln í dag. AFP

Ævintýri franska liðsins Nantes heldur áfram í Meistaradeild Evrópu í handknattleik. Nantes leikur til úrslita í keppninni á morgun við annað hvort Evrópumeistara Vardar frá Makedóníu eða Montpellier. Þetta varð ljóst eftir ævintýralegan sigur Nantes á stjörnum prýddu liði Paris SG, 32:28, í fyrri undanúrslitaleik Meistaradeildarinnar í Lanxess-Arena í Köln, en leiknum var að ljúka.

Nantes var öflugra liðið nánast frá upphafi og vann óvæntan sigur en margir höfðu veðjað á að franska stórliðið Paris SG færi alla leið og ynni keppnina loksins að þessu sinni.

Eftir jafnar upphafsmínútur náðu leikmenn Nantes þriggja marka forskoti, 9:6, þegar 14 mínútur voru liðna af fyrri hálfleik eftir að þeir skoruðu þrjú mörk í röð á kafla þar sem þeir voru manni fleiri eftir brottrekstur Norðmannsins  Sandor Sagosen. Stemningin var með Nantes-liðinu sem var vel stutt að sínum fjölmörgu og litríku stuðningsmannahóp sem ekki hefur látið sig vanta í Köln um helgina.

Leikmenn Nantes gáfu ekkert eftir. Varnarleikur þeirra var frábær og sóknarleikurinn skipulagður og leikinn af þolinmæði. Nantes náði fimm marka forskoti, 13:8, eftir 20 mínútur og hafði þar með byr í seglin gegn vélrænum leika Paris SG þar sem stemning og leikgleði var í lágmarki, eins og oft áður.

Enn jókst munurinn. Nantes náði fimm marka forskoti, 15:10, eftir að Makedóníumaðurinn Kiril Lazarov vann boltann í vörninni og skoraði eftir hraðaupphlaup.  Í þeirri stöðu tók Theirry Anti, þjálfari Nantes, leikhlé sem eftir á að hyggja var ekki skynsamlegt.  Noka Serdarusic, þjálfari Paris SG, fékk þá kærkomið tækifæri til þess að blása lífi í leik sinna manna sem virtist að hruni kominn. Leikhléið sem hann tók snemma leika hafði ekki hrifið.  Hann breytti varnarleiknum og það hreif á sóknarglaða leikmenn Nantes. Munurinn fór niður í tvö mörk, 16:14, ekki síst fyrir stórleik Nedim Remili í sóknarleik Parísarliðsins.  Nantes náði marki fyrir lok hálfleiksins og fór með þriggja marka forskot inn í búningsherbergið, 17:14.

Hafi fyrri hálfleikur verið slæmur af hálfu Paris SG þá var upphafskafli síðari hálfleiks enn verri. Parísmönnum lánaðist ekki að fylgja eftir góðum leik sínum síðustu mínúturnar í þeim fyrri. Leikmenn Nantes skoruðu þrjú fyrstu mörkin og náðu sex marka forskoti, 20:14, eftir rúmlega fjórar mínútur. Stjörnum prýtt lið Paris SG lagði þó ekki árar í bát. Það skoraði þrjú mörk í röð og nýtti sér vel liðsmun sem varð um skeið, en nokkur harka var í leiknum og grunnt virtist á því góða milli leikmanna liðanna. Munurinn fór niður í þrjú mörk, 20:17. Nantes beit frá á nýjan leik og komst fimm mörkum yfir, 22:17.

Nantes hélt forskoti sínu í síðari hálfleik. Það rokkaði frá tveimur og upp í fimm mörk þegar mest var.

Parisarliðið gerði nokkur áhlaup í leiknum. Það síðasta sem hófst níu mínútum fyrir leikslok í stöðunni, 29:24. Paris SG skoraði fjögur mörk í röð og var nærri því að fá fimmta markið en það var dæmt ólöglegt. Um var að ræða umdeildan dóm. Nantes sneri vörn í sókn manni færri og skoraði 30.markið eftir að landsliðsmarkvörður Frakka, Cyril Doumolin, varði vel í opnu færi. Í næstu sókn varði hann vítakast Mikkels Hansen og þar á eftir frá Luc Abolou í hægra horni. Þar með var björninn unninn í bókastaflegri merkingu. Leikmenn Nantes stóðust síðasta áhlaup stjörnuliðsins frá Paris og vann sanngjarnan sigur, 32:28, og leikur til úrslita í Meistaradeildinni á morgun.

Línumaðurinn Nicolas Tournat átt stórleik fyrir Nantes. Hann skoraði átta mörk og fiskaði annað eins af vítaköstum en leikmenn Paris SG réðu ekkert við kappann. Kiril Lazarov skoraði einnig átta mörk, sjö þeirra úr vítaköstum sem Tournat aflaði. 

Nedim Remili skoraði sex mörk fyrir Paris SG og var markahæstur. Mikkel Hansen skoraði fimm mörk og Nikola Karabatic kom þar á eftir með fjögur mörk en sem fyrr þá fór allur sóknarleikur liðsins í gegnum hann.

Með tapinu í dag þá er ljóst að Noka Serdarusic, þjálfari Paris SG nær ekki að komast í flokk með Alfreð Gíslasyni og Talant Dusebaev sem hafa stýrt liðum tveggja félaga til sigurs í Meistaradeildinni. Serdarusic hættir hjá Parísarliðinu eftir keppnistímabilið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert